Hvernig nota ég Stafapokann?
Pokarnir eru sniðnir til að henta börnum á ólíkum aldri og þroskastigi, allt frá fyrstu kynnum af hljóðum til fyrstu skrifa og lestrar. Við höfum útbúið einfaldar en áhrifaríkar leiðbeiningar sem fylgja hverjum poka og eru einnig aðgengilegar hér á síðunni. Leikirnir eru hannaðir með mismunandi aldur og færni í huga.
Hugmyndir af leikjum með Stafapokann
Æfa hljóð
Veljið einn staf og einbeitið ykkur að hljóði hans. Orðamyndirnar eru teknar af stafnum og lagðar á hvolf fyrir framan þátttakendur. Dregið er eitt orð í einu og þátttakendur segja orðið með sérstakri áherslu á hljóðið sem unnið er með. Hentar frá ca. 2 ára aldri.
Bingó

Hver leikmaður velur sér einn eða fleiri stafi (leikurinn verður erfiðari með fleiri stöfum). Myndirnar eru teknar af stöfunum og settar í pokann. Blandið þeim vel. Leikmenn skiptast á að draga mynd úr pokanum og segja/lesa orðið. Sá sem hefur stafinn sem orðið byrjar á fær myndina. Sá sem fyrst safnar öllum myndunum sem passa við sinn staf vinnur leikinn. Hentar frá ca. 3 ára aldri.
Mynda orð

Þátttakendur fá nokkra stafi og reyna að mynda úr þeim eins mörg orð og þeir geta (gæta þarf þess að hægt sé að mynda raunveruleg íslensk orð). Orðin má mynda með myndunum á stöfunum eða án þeirra. Hentar frá ca. 6 ára aldri eða þegar barn byrjar að lesa stutt orð.

Skrifa
Þátttakendur velja sér stafi, mynda úr þeim orð og skrifa orðið á blað. Hentar einnig vel með leiknum “Mynda orð”.